Fyrrverandi nemendur GRÓ í Kenía funda með starfsfólki svæðisskrifstofu UNESCO í Austur-Afríku
Fyrrverandi nemendur GRÓ í Kenía komu í fyrsta sinn saman á sameiginlegum GRÓ viðburði fyrr í mánuðinum. Kenía er stærsta samstarfsland GRÓ, en alls hafa 175 Keníabúar á síðustu fjörutíu lokið 5-6 mánaða þjálfun á Íslandi á vegum GRÓ, 29 hafa hlotið skólastyrk frá GRÓ til meistaranáms og 9 til doktorsnáms.
Fundurinn fór fram á svæðisskrifstofu UNESCO fyrir A-Afríku í Naíróbí og var hann skipulagður í tengslum við heimsókn forstöðumanns GRÓ til Kenía. GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfar undir merkjum UNESCO og hafa 30% af nemendum GRÓ í gegnum tíðina komið frá löndunum þrettán í Austur-Afríku sem heyra undir svæðisskrifstofuna. Tilgangur heimsóknarinnar var tvíþættur, annars vegar að kanna hvernig styrkja megi samstarf milli GRÓ og svæðisskristofu UNESCO, þar sem starfsemi GRÓ hefur verið svo mikil á svæðinu, og hins vegar að eiga fundi með fyrrverandi nemendum GRÓ og samstarfsaðilum.
Jarðhitaskólinn hefur starfað í Kenía allt frá árinu 1982 og hafa 146 sérfræðingar frá Kenía lokið þaðan 6 mánaða námi. Þá hafa 28 þeirra fengið skólastyrk til meistaranáms og sex til doktorsnáms. Margir af fyrrverandi nemendum Jarðhitaskólans hafa verið í lykilhlutverki við að þróa nýtingu jarðhita í landinu síðustu fjóra áratugi og mörg þeirra tóku þátt á fundinum. Þau komu til Íslands á ólíkum tímum, frá árinu 1996 til 2022. Nemendurnir útskýrðu mikilvægt hlutverk Jarðhitaskólans í þróun jarðhitanýtingar í landinu og hvernig rannsóknir sem þau unnu í náminu á Íslandi nýttust þeim með beinum hætti við að beisla jarðhitann með svo góðum árangri. Hlutur jarðhita í raforkuvinnslu í Kenía í dag er 47%. Uppsett afl í jarðvarmavirkjunum í Kenía var 944 MW í lok ársins 2021. Landið framleiðir þannig meira rafmagn með jarðvarma en Ísland, en uppsett afl í jarðvarmavirkjunum hér á landi var 756 MW á sama tíma.
„Kenía hefur náð þessum árangri vegna framlags Jarðhitaskólans. Kenía gæti ekki verið á meðal 6 eða 7 stærstu landa í heimi í jarðhita, ef það væri ekki fyrir þá þjálfun og uppbyggingu á færni sem við höfum fengið frá Jarðhitaskólanum,” sagði einn nemendanna. Nemendurnir ræddu einnig reynslu fyrstu kvennanna sem létu til sín taka í jarðhita, en meðal þeirra fulltrúa sem sóttu fundinn voru þrjár konur sem hafa verið í lykilhlutverki í þróun og nýtingu jarðhita í landinu. Þær sögðu frá því hvernig þær hafa þjálfað og leiðbeint yngri konum og hvatt þær til að sækja fram innan jarðhitageirans. Konum hefur fjölgað innan geirans, en enn eru áskoranir hvað þetta varðar. Samstarfsstofnanir Jarðhitaskólans í Kenía eru ríkisorkufyrirtækin KenGen og Geothermal Development Company (GDC), auk þess sem samstarf hefur verið við Kenyatta-háskóla og ráðuneyti orku- og umhverfismála.
Sjávarútvegsskólinn hefur þjálfað 24 sérfræðinga frá Kenía, og veitt 1 meistarastyrk og 3 doktorsstyrki. Allt frá upphafi, eða í tæpa þrjá áratugi, hefur Sjávarútvegsskólinn lagt áherslu á að þjálfa sérfræðinga frá löndunum í kringum Viktoríuvatn, þ.e. Keníu, Tansaníu og Úganda. Sameiginleg stjórnun auðlinda vatnsins hefur verið áskorun og í dag vinna margir af þeim 76 nemendum sem komið hafa í Sjávarútvegsskólann frá þessum löndum, saman að því að koma á sjálfbærri nýtingu fiskiauðlinda vatnsins.
Fimm nemendur hafa útskrifast frá Jafnréttisskólanum frá Kenía og voru fjórar þeirra viðstaddar fundinn. Þær sögðu frá því hvernig námið á Íslandi hefur hjálpað þeim að beita jafnréttisfræðum með beinum hætti í sínu starfi, t.d. til að hvetja menn til að beita sér í þágu kynjajafnréttis, vernda konur gegn kynbundnu ofbeldi og samþætta jafnréttismál inn í allt starf.
Forstöðumaður GRÓ, Nína Björk Jónsdóttir, sagði á fundinum frá sögu GRÓ skólanna fjögurra og frá starfi þeirra í Austur-Afríku. Dr. Alexandros Makarigakis, yfirmaður náttúrufræðasviðs svæðisskrifstofunnar, kynnti starf UNESCO í Austur-Afríku. Starfsfólk UNESCO sem starfar að ólíkum sviðum á svæðisskrifstofunni, sótti fundinn, auk Auðbjargar Halldórsdóttur, fastafulltrúa Íslands gagnvart UNESCO og Tom Mboya Wambua, Ræðismanni Íslands í Naíróbí. Prófessor Hubert Gijzen, yfirmaður svæðisskrifstofu UNESCO fyrir Austur-Afríku, hitti nemendur eftir viðburðinn, þar sem þau sögðu frá námi þeirra á Íslandi og störfum sínum í Kenía. Starf UNESCO á svæðinu var einnig rætt.