Fyrrum nemendur GRÓ-skólanna hittast í Úganda
Um þrjátíu fyrrum nemendur GRÓ-skólanna fjögurra sem starfræktir eru á Íslandi komu saman í sendiráði Íslands í Kampala í vikunni. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrrverandi nemendur Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans, Landgræðsluskólans og Jafnréttisskólans hittast í Úganda. Sumir þeirra nemenda sem sóttu viðburðinn voru við nám á Íslandi fyrir mörgum áratugum og eru nú komnir á eftirlaun, en aðrir útskrifuðust á síðasta ári.
Viðburðurinn var skipulagður í tengslum við heimsókn Nínu Bjarkar Jónsdóttur, forstöðumanns GRÓ - þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, til Úganda. Markmið heimsóknarinnar er tvíþætt, annars vegar að eiga fundi með fyrrverandi nemendum skólanna og samstarfsaðilum GRÓ, og hins vegar að funda með fulltrúum UNESCO í þessum heimshluta, en GRÓ starfar undir merkjum UNESCO.
Um 30 prósent nemenda GRÓ-skólanna hafa komið frá Austur-Afríku og allir skólarnir hafa verið mjög virkir í Úganda. Alls hafa 109 Úgandabúar sótt fimm til sex mánaða námið á Íslandi, þrír hafa lokið meistaraprófi með styrk frá GRÓ og fjórir doktorsgráðu. Ellefu stutt námskeið hafa verið haldin í Úganda.