Góður árangur af starfi GRÓ staðfestur í viðamikilli úttekt
Viðamikil óháð úttekt fyrirtækisins GOPA á starfi GRÓ skólanna, það er Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans, á árunum 2018–2023 staðfestir góðan árangur af starfi þeirra. Í úttektinni eru lagðar fram 37 tillögur til úrbóta er varða skólana og GRÓ miðstöðina.
Helsta niðurstaða úttektarinnar er að skólarnir hafi með skilvirkum hætti náð tilætluðum árangri með stuðningi við ungt fagfólk og samstarfsstofnanir í 76 ríkjum og þannig gert þeim kleift að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þá hafi þjálfun sem nemendur hlutu skapað grundvöll fyrir þá til að tileinka sér nýja þekkingu, hæfni og aðferðir.
Þá sýna niðurstöður úttektarinnar að starf skólanna sé í fullu samræmi við stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og hafi reynst góð viðbót við aðra alþjóðlega þróunarsamvinnu, meðal annars í tvíhliða samstarfsríkjum Íslands. Þó séu merki um að auka megi frekari samlegð þar á milli. GRÓ hafi jafnframt lagt sitt af mörkum til þverlægra forgangsmála í íslenskri þróunarsamvinnu, svo sem á sviðum kynjajafnréttis, mannréttinda og umhverfis- og loftslagsmála.
Í úttektinni segir að skilvirkni í starfinu sé mikil, en frá árinu 2018 til ársins 2023 hlutu 534 einstaklingar þjálfun í 5–6 mánaða staðbundnu námi á Íslandi, tæplega 1700 einstaklingar í gegnum styttri námskeið og rösklega 39 þúsund nemendur sóttu netþjálfun. Þá fengu 239 fyrrverandi nemendur stuðning til að sitja alþjóðlegar ráðstefnur á sínum fræðasviðum.
Þau sem nutu stuðnings í gegnum GRÓ hafi að mestu verið frá fátækustu ríkjum heims. Endurgjöf nemenda og helstu samstarfsstofnana sýni að þjálfunin sé hagnýt og vönduð. Þá er vakin sérstök athygli á að verulegar framfarir hafi orðið frá árinu 2022 hvað varðar skýrari ramma og stefnu fyrir starfið, samræmdar árangursmælingar og markmið til framtíðar litið.
Þá segir í úttektinni að fyrrverandi nemendur GRÓ séu víða í lykilstöðum í heimalöndum sínum sem geri þeim kleift að hafa víðtæk áhrif. Árangur nemenda sé aðdáunarverður með tilliti til verkefna og starfa er tengjast heimsmarkmiðunum. Um 73% nemenda sem hlutu þjálfun á Íslandi telji að hún hafi verulega bætt faglegan starfsferil þeirra, og 90% telji að hún hafi aukið framlag þeirra til viðkomandi fagsviðs. Hagkvæmni í rekstri þykir einnig góð sé litið til árangurs í starfi. Þannig hafi meðalkostnaður á nemanda lækkað lítilsháttar frá árunum 2012–2016. Sérstakur árangursrammi er jafnframt talinn hafa styrkt verulega vöktun, eftirlit og stýringu verkefna.
GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu er ráðuneytisstofnun sem starfrækir skólana fjóra en þeir eru hýstir hjá opinberum stofnunum á viðkomandi fagsviðum. Það fyrirkomulag sem komið var á 2020, þar sem GRÓ starfar undir merkjum UNESCO, er metið viðunandi í úttektinni. Nokkuð samstarf eigi sér stað nú þegar milli GRÓ og UNESCO en langtímasamstarf við stofnunina og tengda samstarfsaðila opni frekari möguleika á að valdefla fyrrverandi nemendur skólanna, sem starfi vítt og breitt um heiminn.