Fyrrum GRÓ nemar samankomnir í Jakarta
Á fimmtudag í síðustu viku buðu GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu og sendiráð Íslands gagnvart Indónesíu fyrrum nemum Jarðhitaskólans og Sjávarútvegsskólans til móttöku í Jakarta. Móttakan var haldin í tengslum við hina árlegu IIGCE jarðhitaráðstefnu sem sótt var af fulltrúum fimm íslenskra fyrirtækja auk Íslandsstofu.
Mikill fjöldi fyrrum GRÓ nema starfar innan jarðhitafyrirtækja í Indónesíu og kom skýrt fram að námið á Íslandi hafi nýst þeim vel við uppbyggingu jarðvarmanýtingar í landinu. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart Indónesíu, og Ingimar G. Haraldsson aðstoðarforstöðumaður Jarðhitaskólans buðu gesti velkomna og ræddu m.a. sterk tengsl Íslands og Indónesíu sem myndast hafa í gegnum nemendur GRÓ skólanna.
Nú vinna ríkin saman að því að uppfæra samkomulag um jarðhitasamstarf, sem upphaflega var undirritað 2008.